Fæðuval
Melrakkinn er sérkennileg blanda sérhæfðs rándýrs og tækifærissinna í fæðuvali.
Á freðmýrum (tundrum) Norður-Ameríku og í Evrasíu (Evrópa og Asía) eru læmingjar (ættkvíslirnar Lemmus og Dicrostonyx) uppistaðan í fæðu melrakkans. Læmingi er nagdýr, á stærð við hamstur en til eru margar tegundir sem eru útbreiddar um flest norðursvæði jarðar. Miklar sveiflur eru á stærð læmingjastofna sem ná toppum á þriggja til fimm ára fresti. Til dæmis geta stofnstærðir þeirra verið mörg hundruð sinnum stærri í hámarki en í lágmarki (Gilg 2000). þetta hefur áhrif á stofnstærð melrakka, þeir tímgast þegar læmingjastofnar eru í hámarki en gengur illa að koma yrðlingum á legg þegar stofninn er í lágmarki. Þarna virðist melrakkinn mjög sérhæfður í fæðuvali því að hann skiptir helst ekki yfir í aðra fæðu nema mjög lítið sé af læmingjum (Elmhagen o.fl. 2000). Melrakkastofnar á þessum svæðum sveiflast í takt við læmingjana, hrynja þegar læmingjar eru fáir en stækka svo eftir hámark í læmingjastofnum.
Á öðrum svæðum snýr melrakkinn sér að farfuglum að sumri eða hræjum stærri dýra að vetri. Einnig elta þeir hvítabirni (Ursus maritimus) allt að 800km út á hafís og éta leifar af selshræjum sem þeir skilja eftir sig. Þar sem læmingja er ekki að finna, svo sem á Íslandi, Aljútaeyjum við Alaska, Jan Mayen, Svalbarða, vestur og suðaustur Grænlandi étur melrakkinn fyrst og fremst sjófugla.
Fuglar eru uppistaðan í fæðu melrakkans hér á landi en breytileikinn samt sem áður mikill eftir búsvæðum og árstíðum. Sjófuglar, einkum fýll (Fulmarus glacialis), eru mikilvægastir við sjávarsíðuna en inn til landsins eru farfuglar ýmiskonar, þ.e. gæsir, vaðfuglar og spörfuglar, aðalfæðan að sumarlagi en rjúpan að vetrarlagi (Angerbjörn o.fl. 1994, Páll Hersteinsson & Macdonald 1996). Eina nagdýrið sem melrakkinn hefur aðgang að á Íslandi er hagamúsin (Apodemus sylvaticus) þó er hún lítill hluti fæðunnar nema helst á haustin. Melrakkinn étur einnig hryggleysinga, einkum úr fjörunni og hræ af ýmsum toga, til dæmis af sjávarspendýrum, hreindýrum og sauðfé. Sum dýr, svokallaðir dýrbítar, taka upp á því að drepa sauðfé sér til matar (sjá fyrir neðan). Krækiber eru mikilvæg á haustin (Hálfdán H. Helgason 2008).
Á Íslandi er rjúpan eina fæðutegund melrakkans sem vitað er til að gangi í gegnum reglubundnar stofnsveiflur, sú sveifla gengur yfir á áratug og er ekki eins kröpp og læmingjasveiflan auk þess sem melrakkinn nær að vega á móti henni með því að snúa sér að annarri fæðu.
Gotstærð margra spendýra er hægt að meta með talningu legöra (Páll Hersteinsson 1993). Legör eru dökkir blettir í legi sem myndast á fyrstu vikum meðgöngu þar sem fylgjan er áföst við legvegginn.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslandi er meðalgotstærð íslenska melrakkans 5,4 yrðlingar (±1,6) (Páll Hersteinsson 1990, 1993). Frjósemi læðna nær hámarki við 2 til 3 ára aldur en dvínar eftir það. Melrakkinn gýtur að jafnaði um miðjan maí á Íslandi eftir 52-53 daga meðgöngu (Nowak 1999).
Þó íslenskar refalæður séu ekki eins frjósamar og þær sem búa á læmingjasvæðum, eignast þær ekki endilega færri yrðlinga yfir ævina. Þar kemur til að stöðugt fæðuframboð veldur því að á Íslandi tímgast refir á hverju ári en ekki með árlegum sveiflum í takt við fæðuframboð eins og læðurnar á læmingjasvæðunum gera.
Lífslíkur yrðlinga á Íslandi eru góðar ef frá er skilin grenjavinnsla en dánartíðni þeirra frá goti til ágústloka er innan við 25%. Á freðmýrunum er frjósemi mun hærri og meðalfjöldi legöra helmingi hærri en á Íslandi. Í læmingjaárum kemur hvert par 8 til 10 yrðlingum á legg en þeir eru miklu minni við fæðingu en t.d. íslenskir yrðlingar. Hámarksfjöldi yrðlinga sem hver læða getur komið upp í læmingja árum stjórnast af lífeðlisfræðilegum takmörkum hennar hvað varðar meðgöngu og fóðrun fyrstu 3 vikurnar.
(C) Melrakkasetur Íslands; Hólmfríður Sigþórsdóttir tók saman