Litir á feldi

Móraður - Hvítur 

Tvö meginlitarafbrigði eru af melrakkanum; hvítt- og mórautt. Einnig er til ljósmórautt (bleikt) litarafbrigði en það er sjaldgæft. Í bók sinni "Á refaslóðum" sem Búnaðarfélag Íslands gaf út árið 1955 fjallar Theódór Gunnlaugsson um liti melrakkans. Hann flokkar m.a. litina í sex afbrigði (bls 36), þ.e. hvítan, gráan, bláan, mórauðan, gulan og svartan. Samkvæmt þessu er töluverður breytileiki í lit íslensku refanna.

Mórauðu dýrin eru mórauð allt árið en þó ljósari á veturna en sumrin. Silfrun velur því að þau virðast gráleitari að vetrarlagi og þegar kemur fram í maílok og júníbyrjun eru leifar vetrarfeldarins oft orðnar ljósbrúnar eða gráleitar.

Mismikil silfrun í feldi kemur fram þegar vetrar­feldur mórauðra melrakka er fullþroskaður. Silfrun í feldi stafar af því að sum vindhárin eru með ljóst belti neðan við hárbroddinn. Broddur háranna er þá dökkur, síðan kemur breitt ljóst belti og svo er hárið dökkt neðst. Sumir melrakkar eru með nokkur hvít hár á bringu, hvíta stjörnu, rák eða kross. Þegar dýrin eru með kross á bringu er ekki óalgengt að þau séu líka með eitthvað hvítt á loppum og jafnvel örmjóa blesu á enni og milli augna og höku.


Melrakkar af hvíta litarafbrigðinu eru hvítir á veturna en að sumarlagi eru bak og utanverðir útlimir grábrúnir en kviður og innanverðir útlimir ljósgráir. Hvítir melrakkar eru fæstir alhvítir þegar grannt er skoðað, nánast allir hvítir melrakkar með nokkur dökk hár í skottbroddi og mjög algengt er að með hryggnum sé dálítið um dökk hár, brúnleit eða svört. Aðeins lítill minnihluti er alhvítur í vetrarfeldi.

Hvít og mórauð dýr æxlast óhindrað og er hvíti liturinn víkjandi. Melrakkar fara úr hárum vor og haust.

Að meðaltali eru 2/3 íslenska melrakkastofnsins af mórauða litarafbrigðinu en útbreiðslan er breytileg eftir landshlutum. Hlutfall hvíta litar­afbrigðisins er lægst á Vestfjarðakjálka og á Snæfellsnesi en hæst í S-Múlasýslu. Hlutföllin breyt­ast þó frá einum tíma til annars. Á svæðum þar sem stór hluti fæðunnar er sóttur í sjó er meira um mórauð dýr en mórauði liturinn auðveldar melrakkanum að dyljast í fjöru. Hvíti liturinn hjálpar dýrinu að dyljast í snjó að vetri auk þess sem þeir falla vel í íslenskar fjallshlíðar að sumri. Góður felulitur getur skipt sköpum í lífsbaráttunni.
Erlendis eru flestir melrakkar af hvíta litarafbrigðinu.