Tímgun og félagskerfi

Félagskerfi og lífshættir

Lífshættir melrakkans eru breytilegir eftir árstíðum. Sumarið er tímabil yrðlinga­uppeldis en veturinn einkennist af undirbúningi undir fengitíma og meðgöngu, þar á meðal far ungra dýra að heiman í leit að maka og óðali. Fæðuskilyrðin eru ólík, yfirleitt er næg fæða að sumarlagi að minnsta kosti til að viðhalds eigin líkamsstarfsemi en fæða getur verið stopul að vetrarlagi. Viðbrögð melrakkans við þessu eru að safna fitulagi og grafa fæðu að sumarlagi sem þeir geta nýtt sér um veturinn. Dýrin fitna og þyngjast mjög hratt að haustlagi og gegna krækiber þar mikilvægu hlutverki en ávaxtasykur er heppilegur efniviður í fitu. Þegar fengitími nálgast gefa dýrin sér minni tíma til að éta og hreyfa sig meira og grennast því á ný.

Meginreglan í samfélagi melrakkans er einkvæni og einvera, refirnir eru ekki félagsdýr og fara ekki í flokkum eins og t.d. úlfar. Refaparið heldur saman meðan bæði lifa, ver óðal sitt í sameiningu og sinnir uppeldi yrðlinga. Ein ástæða einkvænis gæti verið sú að fengitíminn er það stuttur að steggurinn þori ekki að yfirgefa læðuna af ótta við að missa af tækifærinu við pörun því læðan er einungis móttækileg í nokkra daga. Eins er líklegt að sterkt náttúruval sé fyrir því að halda tryggð við maka sem hefur hæfni til að viðhalda óðali og koma upp yrðlingum.

Fram á næsta fengitíma eru lítil bein samskipti milli parsins en heilmikil óbein samskipti (gagg og lyktarmerkingar). Missi melrakki maka sinn, parar hann sig fljótlega á ný og á þetta við um bæði kyn. Stundum eru ein eða fleiri ársgamlar dætur parsins (hjálpar­dýr) enn á óðali foreldranna að sumarlagi. Þær færa yrðlingum fæðu heim á grenið og eyða töluverðum tíma með þeim. Þó er ekkert sem bendir til að sú hjálp skipti neinu máli hvað varðar afkomu yrðlinganna. Geldlæður þessar virðast eiga það sameiginlegt að hverfa af svæði foreldranna í júlí.

Melrakkinn gerir sér greni, oftast í urð, og gýtur þar yrðlingum sínum. Yfirleitt er fleira en eitt op á greninu. Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldi yrðlinganna. Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu um aðdrætti. Læðan tekur þá gjarnan á móti honum, betlar af honum fæðuna og étur eða felur. Þegar yrðlingarnir taka að éta kjöt fer læðan að verja meiri tíma fjarri greninu á veiðum og sefur gjarnan yfir hádaginn annars staðar en á greninu, eins og steggurinn hefur oftast gert frá upphafi.

Yrðlingarnir eru blindir við got en augun opnast um það bil við 15 daga aldur. Þeir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Móðirin venur þá síðan af spena við 6 til 10 vikna aldur. Meðan yrðlingarnir eru enn á spena er orkuþörf læðunnar mjög mikil, mun meiri en orkuþörf steggsins þótt hann sé stærri (Diamond & Hammond 1992). Þess vegna étur hún sjálf hluta þeirrar fæðu sem steggurinn kemur með heim á grenið á þessum tíma. Þegar hún er búin að venja yrðlingana af spena, minnkar orkuþörf hennar og báðir foreldrar færa yrðlingunum álíka mikla fæðu heim á grenið þótt heimsóknir læðunnar á grenið séu yfirleitt tíðari en heimsóknir steggsins (Ester Rut Unnsteinsdóttir o.fl. 1999).

Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil 12 vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, dreifa þeir sér um óðalið og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að melrakki hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir (Páll Hersteinsson, óbirt gögn). Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir. Heimsóknum foreldra fækkar með tímanum og um haustið (september til desember) má gera ráð fyrir að yrðlingar yfir­gefi óðalið, þeir fyrstu um miðjan september.Misjafnt er hversu langt yrðlingar þurfa að leita frá heimasvæði foreldranna til að komast á laust óðal. Vegalengdin getur farið eftir þéttleika á svæðinu og veiðiálagi.

Steggir virðast fara fyrr en læður og nær fartími þeirra hámarki í október-nóvember en læðurnar eru að jafnaði um mánuði síðar á ferðinni. Rannsóknir á Íslandi benda til þess að dýrin setjist tiltölulega fljótt um kyrrt, væntanlega á stað þar sem þau verða fyrir litlu áreiti eldri dýra á óðali. Steggirnir virðast svo halda sig þar áfram, líklega í þeim tilgangi að tryggja sér óðal þar.

Læður haga sér öðru vísi, að minnsta kosti sumar þeirra. Þær halda sambandi við óðal foreldranna með því að heimsækja það öðru hverju, jafnvel þótt þær haldi sig að mestu annars staðar (Páll Hersteinsson 2001). Líklegt er að þær séu með þessu að baktryggja sig svo að þær eigi afturkvæmt á óðal foreldranna ef þeim mistekst að ná sér í maka og óðal. Sennilega er nauðsynlegt fyrir þá að viðhalda lyktinni af sér á óðali foreldranna til að eiga afturkvæmt, því líklegt er að hún breytist smám saman á fyrsta vetri, þegar dýrin eldast og ná kynþroska.

Mistakist læðunni að ná sér í maka og tryggja sér nýtt óðal getur hún snúið aftur heim á óðal foreldranna og haldið sig þar næsta sumar. Slíkar geldlæður hverfa gjarnan að heiman um hásumar. Líkleg skýring á því er sú að þær haldi áfram að skreppa að heiman til að fylgjast með því hvort óðul losni í grennd eða steggir missi læður sínar, t.d. vegna grenjavinnslu. Þá nota þær tækifærið til að flytja að heiman og standa þannig mun betur að vígi í samkeppni um maka en læður sem eru ári yngri og fara ekki að heiman fyrr en síðla hausts eða fyrri hluta vetrar (Páll Hersteinsson 1984).

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

(C) Melrakkasetur Íslands; Hólmfríður Sigþórsdóttir tók saman