Útbreiðsla melrakka og búsvæði á Íslandi
Melrakkinn er norðlægasta refategundin og útbreiddur á ströndum og eyjum allt í kring um Norðurheimskautið. Nyrst er hann á Grænlandi (83°N) og syðst við Hudsonflóa í Kanada (54°N) en syðri útbreiðslumörk melrakkans miðast við norðurmörk barrskógabeltisins. Suðurmörk útbreiðslu melrakkans á meginlöndum Norður-Ameríku og Evrasíu ráðast líklega af útbreiðslu rauðrefs (Vulpes vulpes) sem er stærri en melrakkinn og sigrar ávallt í beinum átökum milli tegundanna. Norðurmörk útbreiðslu rauðrefs ráðast hins vegar af fæðuframboði en rauðrefur er mun þurftarfrekari en melrakkinn vegna stærðar sinnar og verri einangrunar feldarins að vetrarlagi (Hersteinsson & Macdonald 1992).
Á síðasta jökulskeiði, fyrir 117-10 þúsund árum, var útbreiðsla melrakkans allt önnur en nú, en þá fannst hann meðal annars sunnan ísaldarjökulsins í Evrópu allt suður til Ítalíu. Við lok Ísaldar hopaði melrakkinn norður á bóginn og settist meðal annars að á Íslandi þegar þar varð lífvænlegt. Melrakka hefur fækkað mikið í Skandinavíu og hefur verið friðaður þar í 70-80 ár (Hersteinsson o.fl. 1989).
Búsvæði melrakka eru mjög breytileg, allt frá því að hafa tiltölulega milt loftslag eins og á Aljútaeyjum til freðmýranna á kanadísku heimskautaeyjunum og í Síberíu sem eru með köldustu svæðum jarðar.
Melrakkinn hefur borist til landsins með hafís en ekki er ljóst hvort hann kom frá Grænlandi eða Vestur-Evrópu. Íslenski stofninn hefur að mestu verið einangraður síðan við lok ísalaldar (Dalén o.fl. 2005). Melrakkann er að finna um allt Ísland að undanskildum jöklum og eyðimörkum miðhálendisins auk eyja kringum landið. Á Íslandi eru búsvæði melrakkans tvennskonar, við sjó og inn til landsins. Mest er um melrakka víða við sjávarsíðuna ekki síst í grennd við fuglabjörg og nær þéttleiki líklega hámarki í Hornstrandafriðlandi.
(C) Melrakkasetur Íslands; Hólmfríður Sigþórsdóttir tók saman